Vinabangsar

Hér á Vesturborg leggjum við áherslu á vináttu og virðingu í öllu okkar starfi. Fyrir mörgum árum síðan byrjuðum við með Vinabangsa sem höfðu það hlutverk að fara í heimsóknir heim með börnunum og dvelja hjá þeim yfir helgi. Vinabangsarnir, þau Baddi, Kjartan og Birgitta, fræddust um umheiminn með börnunum og lærðu með þeim um ábyrgð, virðingu og vináttuna. 

Nú er svo komið að þríeykið er orðið ansi þreytt og lúið. Við ákváðum því að leyfa þeim að setjast á hilluna og gera smá breytingu. Við geymum gömlu bangsana hjá okkur og pössum upp á bækurnar sem fylgdu þeim, þar má skoða fjöldan allan af sögum af ævintýrum barnanna á Vesturborg með Vinaböngsunum. 

Núna um haustið 2020 ætlum við að leyfa kærum vini okkar, honum Lubba, að gerast Vinabangsi Vesturborgar. Lubbi er mjög spenntur yfir þessu ævintýri! Á hverri deild er einn Lubbi og með hverjum Lubba fylgir taska með bók þar sem barnið og fjölskylda þess skrifar um tímann þeirra saman og setur inn myndir. Lubbi tekur einnig með sér bókina Lubbi finnur málbein, en Lubbi er mikill áhugahundur um íslensku málhljóðin. 

Lubbi kemur því með skemmtilega viðbót í heimsóknirnar, þar sem hann hjálpar barninu að sýna fjölskyldunni sinni heima hvernig við vinnum að málhljóðavitund og læsi í leikskólanum. Það er aðeins mismunandi eftir aldri og getu barnanna hvernig við notum Lubbaefnið, en þegar Lubbi kemur í heimsókn er alltaf ákveðið málhljóð sem barnið fær og fjölskyldan ákveður saman hvernig þau vilja vinna með hljóðið heima. Þau geta lesið um það í bókinni, skoðað spjald hljóðsins sem fylgir líka með, fundið hluti í sínu umhverfi sem byrja á þessu hljóði, og svo framvegis! Þessu bæta börnin við sína frásögn í Lubbabókinni og svo fá þau að segja frá öllu saman í samverustund eftir helgina. 

Lubbi hlakkar til að fá að heimsækja alla vini sína í Vesturborg!