Leikskólastarf

Dagskipulag

Hér má sjá hvernig dagarnir okkar eru skipulagðir. Það að hafa fastar daglegar venjur er mikilvægt og veitir börnunum öryggi. 

Nánara skipulag fyrir hverja deild má sjá á síðum þeirra undir "Deildir"

7:30          - Leikskólinn opnar á Norðurbæ

8:00          - Allar deildir opnaðar

8:00-8:45   - Morgunmatur 

9:00-9:45   - Róleg stund / Frjáls leikur / Val

10:00         - Ávaxtastund

10:00-11:00 - Þemavinna / Hópastarf / Útivera / Hreyfistund

11:10-11:30 - Samverustund

11:30-12:45  -Hádegisverður -  Hvíld / Róleg stund

13:00-14:30  - Útivera

14:45-15:00 -Sögustund

15:00-15:30 - Miðdegishressing

15:45-17:00 - Frjáls leikur / Róleg stund / Val

17:00           -Leikskólinn lokar

 

Við leggjum áherslu á grunnöryggi og sjálfstæði barnanna okkar og ein leið til þess er að hafa fastan ramma um daglega starfið. Allir dagar eru eins í grunninn og börnin læra fljótt hvað er næst á dagskrá sem veitir þeim öryggi. 

Hér má sjá grundvallar dagskipulag leikskólans, nánara skipulag má sjá hjá hverri deild fyrir sig undir "Deildir":

 

Hópastarf

Í hópastarfi vinnum við á markvissan hátt í litlum hópum. Við förum í ýmis verkefni sem eru mismunandi eftir aldri barnanna og getu. Í hópastarfinu er til dæmis farið í málörvunarleiki, spil-og regluleiki, leiki og æfingar sem efla fínhreyfingar, tónlistartíma, vettvangsferðir og margt fleira. 

Á hverri deild er börnunum skipt í þrjá til fjóra hópa sem ákveðinn starfsmaður fylgir. Hóparnir sitja einnig saman við borð á matmálstímum. 

Hugmyndafræði

Í starfinu á Vesturborg nýtum við okkur hugmyndafræði John Dewey sem miðar að því að nám og daglegt líf renni í eitt. Samkvæmt Dewey á barn að læra af eigin reynslu eða eigin virkni og áhuga. Dómgreind og reynsla kennarans er mikilvæg þar sem hann er samtarfsaðili barnsins og leiðbeinir því við sameiginleg verkefni. 

Dewey skipti aðaláhugasviðum barna í fjóra þætti:

  1. Áhugi á samræðum og samveru sem byggist á félagslegri eðlishvöt. 
  2. Áhugi á að rannsaka og uppgötva.
  3. Áhugi á að búa til hluti, skapa og setja saman.
  4. Áhugi á listrænni tjáningu, að tjá sig í myndlist, söng og hreyfingu. 

Við leggjum okkur fram við að leyfa börnunum að leika sér sjálf og öðlast reynslu við hin ýmsu verkefni sem við tökum okkur fyrir hendur. 

Leikskólastarf

Starfið á Vestuborg er unnið eftir aðalnámskrá leikskóla sem gefin er út af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Samkvæmt henni eru grunnþættir menntunar eftirfarandi; læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun. Við mótun okkar stefnu höfum við þessa þætti til grundvallar ásamt því að styðjast við hugmyndafræði John Dewey. Hann taldi að daglegt líf og nám ættu að renna saman í eitt og að börnin lærðu best af eigin reynslu, virkni og áhuga.

Einkunnarorðin okkar á Vesturborg eru Vinátta og Virðing

Leikur

Kjarninn í starfi leikskólans er leikurinn. Leikur er hið eðlilega tjáningarform barna og í leik, bæði frjálsum og skipulögðum, þroskast þau og læra margt. 

Við sköpum börnunum gott rými og gefum þeim tíma til að efla og þróa frjálsan leik. Einnig förum við í skipulagða leiki, hlutverkaleiki og spila- og regluleiki. Í gegnum leikinn læra börnin meðal annars að taka tillit til annarra, fara eftir reglum og njóta sín sem einstaklingar. Þar reynir einnig á frumkvæði, sjálfstæði og úthald. 

Lífsleikni

Lífsleikni snýst um að efla alhliða þroska barnanna, þjálfa rökræna tjáningu,  auka færni til samskipta og kenna þeim að  bera virðingu fyrir umhverfi sínu. 

Hér á Vesturborg leggjum við áherslu á að börnin fái tækifæri til að koma fram og tjá sig í litlum og stórum hópum. Með því styrkjast þau í að koma fram, læra að taka tillit til annarra og að hlusta á aðra. Börnin koma saman einu sinni í viku í salnum og syngja og þá eru deildirnar gjarnan með atriði fyrir hina. 

Vinátta og virðing eru okkar einkunnarorð og okkur þykir mikilvægt að kenna börnunum að virða hvert annað og umhverfi sitt. Þau læra mikið um mannleg samskipti í daglega starfinu; í leik, samverustundum og í skipulögðu hópastarfi. Við lærum einnig mikið um að bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni, til dæmis með því að fara í gönguferðir, fjöruferðir og að hugsa um kartöflugarðinn okkar. 

Saga Vesturborgar

Þann 12. júní árið 1937 opnaði leikskólinn Vesturborg. Í upphafi fór fram tvennskonar starfsemi í skólanum, annars vegar dagheimili þar sem börn gátu dvalið yfir daginn og hins vegar vistheimili þar sem börn dvöldu allan sólarhringinn.

Sumarið 1941 fluttu margir með börnin sín út úr bænum og þótti ekki fært að halda starfseminni í sama horfi. Þess vegna var Vesturborg breytt í fyrstu vöggustofu landsins það sumar. Eftir sumarið var hefðbundið starf tekið upp aftur.

Gamla húsið sem Vesturborg var í brann til kaldra kola og nýja húsið sem byggt var á sama stað stendur enn. Það hús var opnað 1979 og hýsir tvær deildar. Árið 1996 fékk Vesturborg húsið Skála sem var áður skóladagheimili og þar er þriðja deildin okkar.

Sérkennsla

...

Þemastarf

Í þemastarfi vinnum við mörg skemmtileg verkefni. Þemað sem við vinnum með í hvert skipti ræðst af ýmsum þáttum, til dæmis aldri og getu barnanna, árstíðum og því sem vekur áhuga barnanna. Í þemastarfinu gerum við listaverk, förum í ferðir til að safna efniðvið, ræðum um viðkomandi þema og margt fleira. 

Við listsköpun hér á Vesturborg gefum við börnunum eins frjálsar hendur og mögulegt er og reynum að stjórna sem minnst. Í þemavinnunni fá börnin tækifæri til að örva skilningarvitin, kynnast ýmsum efnivið, skapa nýja hluti og tjá sig.