Hagnýtar upplýsingar

Aðlögun

Þegar barn byrjar í leikskóla er mikilvægt að gefa því góðan tíma til aðlögunar. Barnið þarf að öðlast öryggi og mynda gott samband við okkur starfsfólkið, en það finnst okkur vera grundvallarforsenda þess að geta unað sér í leik og starfi hér hjá okkur. 

Hér má sjá pdfaðlögunaráætlun okkar á Vesturborg. 

Fyrst kemur barnið í heimsókn með foreldri í stuttan tíma. Svo smám saman lengist tíminn sem barnið er hjá okkur þar til það er tilbúið að dvelja heilan dag. Þessa áætlun notum við sem viðmið og breytum henni eins og hentar hverju barni. 

Aðlögunartíminn er líka góður fyrir foreldrana að kynna sér betur starfið og kynnast starfsfólkinu!

Afmæli

Afmælisdagar eru merkisdagar í lífi hvers barns! Við í leikskólanum tökum þátt í að heiðra börnin með því að gefa þeim kórónu, syngja fyrir þau og gera þeim eftirminnilegan dag. 

Einnig höfum við svokallaðan afmælisdag í hverjum mánuði. Þá hittumst við öll í salnum og syngjum hátt og snjallt fyrir alla þá sem eiga afmæli þann mánuðinn.  Þessa daga höfum við pizzu og djús í hádegismat og köku í síðdegishressingu. 

 

 

Fatnaður

Fötin sem barnið er með í leikskólanum eru mikilvægur þáttur í að því líði vel yfir daginn. 

Gott er að koma í fötum sem eru þægileg og auðvelt að hreyfa sig og leika sér í. Inniskó er líka mjög gott að vera með. 

Í tösku hvers barns þurfa að vera aukaföt ef eitthvað skyldi koma upp á; nærföt/samfellur, sokkabuxur, sokka, buxur, boli og peysur. 

Okkur finnst frábært að leika okkur úti og förum út á hverjum degi. Veðrið stoppar okkur ekki en gerir það að verkum að börnin þurfa að vera vel út búin! 

Það sem þarf að vera meðferðis er mismunandi eftir árstíðum, á veturna þurfum við að hafa kuldagalla eða úlpu og hlífðarbuxur, kuldaskó, regngalla og stígvél. Við þurfum líka þykkar og hlýjar peysur, ullarsokka, vettlinga, húfur og hálskraga. Auka sett af vettlingum og ullarsokkum í töskunni hafa reynst mörgum vel!

Á sumrin þarf að hafa góða peysu eða jakka, þunna húfu eða buff og skó. Regngallinn og stígvélin fá heldur yfirleitt ekki sumarfrí! 

 

             Athugið að merkja vel allan fatnað með nafni barnsins

 

Ferilbækur

Hér á Vesturborg erum við með bækur fyrir hvert og eitt barn sem við köllum "Ferilbækur". 

Ferilbókin er lítil stílabók sem er merkt barninu og fylgir því alla veruna hér hjá okkur. 

Í bókina skrifum við um það sem við erum að gera á leikskólanum og setjum inn myndir. Einnig setjum við inn myndir eftir börnin og fleira skemmtilegt. Þegar þau eru komin á elstu deildina fá þau að lita og skrifa í bækurnar hvert hjá öðru. 

Þessari bók er líka ætlað að vera samstarfsverkefni milli leikskólans og heimilsins, en ykkur foreldrum er velkomið að taka bækurnar með heim þegar ykkur langar. Þið getið svo sett inn myndir og skrifað um það sem ykkur langar, til dæmis eftir jóla- og sumarfrí, ferðlög, afmæli eða bara hvað sem er! 

Bæði börnum og foreldrum á Vestuborg finnst þessar bækur frábærar og gaman að fá svona flotta bók um leikskólaár barnsins. 

 

 

Leikskólataskan

Við höfum þann háttinn á hér í Vesturborg að hvert barn kemur með töksu með sér þar sem aukaföt eru geymd. Barnið fær pláss í fataklefanum undir töskuna. Hér eru nokkur atriði sem þarf að hafa í huga í sambandi við leikskólatöskuna: 

-Töskurnar eru geymdar uppi á hillum og öryggisins vegna þykir okkur best að töskurnar sjálfar séu ekki mjög þungar og stórar. Stærðin skiptir líka máli svo að allir geti fengið nægilegt pláss.

-Í töskunni eiga að vera aukaföt (sjá kaflann um Fatnað) og annað sem barnið þarf að hafa með sér í leikskólann. Passið að merkja vel öll fötin og töskuna líka, stundum eru margir með eins töskur.

-Á föstudögum er taskan tekin heim, þá er nauðsynlegt að fara vel yfir; passa að nóg sé af fötum og að þau passi ennþá á barnið! Það vill gerast að sömu fötin eru höfð í töskunni í langan tíma og þegar það kemur að því að barnið þarf á þeim að halda eru þau orðin allt of lítil. 

 

Lyfjagjöf

Best er að haga lyfjagjöf þannig að lyfin séu tekin heima því leiskólar sinna því yfirleitt ekki að gefa lyf sé hægt að komast hjá því. 

Við gerum að sjálfsögðu undantekningar ef það er nauðsynlegt, til dæmis fyrir börn sem hafa astma og bendum foreldrum þeirra barna sem verða að fá lyf að ræða slíkt sérstaklega við deildarstjóra. 

 

 

Matartímar

Allur matur á að fara - upp í munn og ofan í maga!

Matartímar eru mikilvægir í leikskólanum. Þeir eru tækifæri til að næra sig og eiga góða stund saman. Við lærum góða borðsiði, bíðum með að byrja þangað til allir eru búnir að fá á diskinn sinn, æfum okkur með hnífapörin og skömmtum okkur sjálf eftir aldri og getu. 

Maturinn á Vesturborg er fjölbreyttur og góður og er einungis unnin úr fersku hráefni. Einstaka daga á ári gerum við þó undantekningu frá þessu og grillum pyslur.

Matseðilinn getið þið séð í fataklefa hverrar deildar og einnig hér á heimasíðunni.

Opnunartími

Við opnum hress og kát klukkan 7:30 á morgnanna. Allir þeir sem mæta fyrir klukkan 8:00 koma fyrst á Norðurbæ (deild yngstu barnanna). Kukkan 8:00 opna Miðbær og Suðurbær og þá fara allir á sína deild. 

Leikskólinn er opinn í níu og hálfan klukkutíma og lokar klukkan 17:00.  

 

Sérkennsla

Börn sem vegna fötlunar, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika þurfa sérstaka aðstoð, eiga rétt á stuðningi í leikskólanum undir handleiðslu sérfræðinga. Meginmarkmiðið með sérkennslu er að tryggja jafnræði allra barna í öllu leikskólastarfi óháð líkamlegu og andlegu atgervi.

Í Vesturborg er starfandi sérkennslustjóri auk tveggja starfsmanna sem sinna sérkennslu á Miðbæ og Suðurbæ. Foreldrum og forráðamönnum er alltaf velkomið að hafa samband við Ásu Birnu sérkennslustjóra ef frekari upplýsinga er óskað. Netfangið hennar er This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. 

Sumarfrí

Börnin taka að lágmarki fjögurra vikna samfleytt leyfi á sumrin. Skoða má reglur um sumarfrí barna hér

Undanfarin ár höfum við á Vesturborg haft lokað í fjórar vikur frá byrjun júlí fram að byrjun ágúst svo að allir taka leyfið sitt þá. Ykkur er velkomið að taka leyfi umfram þessar fjórar vikur þegar ykkur hentar. 

Veikindi

Við getum ekki tekið á móti veikum börnum í leikskólann.

Við viljum halda smiti niðri eins og hægt er og teljum það best fyrir barnið að vera heima í rólegheitum að jafna sig. Gott er að hafa barn heima þar til það hefur verið hitalaust heilan dag. 

Eftir veikindi geta börnin fengið að vera inni í einn eða tvo daga sé þess óskað. 

Foreldrar eru beðnir að tilkynna veikindi barns með því að hringja eða senda okkur tölvupóst. 

 

Vistunartími barna

Í leikskólum Reykjavíkurborgar er boðið upp á vistunartíma frá fjórum upp í níu og hálfan klukkutíma. 

Mikilvægt er að virða vistunartíma barns og koma ekki of snemma eða sækja of seint. Vinnutíma starfsmanna er raðað niður eftir vistunartíma barnanna og því er mikilvægt að þetta standist. 

Sótt er um breytingu á vistunartíma gegnum rafræna reykjavík 

Hér má sjá gjaldskrá leikskóla Reykjavíkur sem sýnir kostnað eftir vistunartíma.